Íslenzkt lambakjet

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Bikiniraunir

Kindin er nokkuð óheppin/heppin með vöxt. Hún er nefnilega með hlutfallslega stór júgur miðað við búkstærð. Vissulega getur verið gaman að vera með svona risabobbinga. Maður öðlast sérdeilis kvenlegar línur auk þess sem að maður hefur fengið ýmsar hamingjustunurnar frá gagnstæða kyninu vegna hins sama. En stórbrjóstalífið er ekki bara hamingja og glens ónei.

Það er nefnilega þannig að ég á í stökustu erfiðleikum með að finna mér júgurhöldur þar eð búðirnar selja ekki slíkar flíkur í jafn asnalegum númerum og ég nota. Yfirleitt gengur þetta þannig fyrir sig að ég fer í búðirnar og bið um númerið mitt.... fæ þá ca. þrjá haldara (og þá er það allt sem þær eiga til). Nánast undantekningalaust eru þetta einhverjir ömmuhaldarar sem ég myndi aldrei fyrir mitt litla líf láta einstakling af gagnstæðu kyni sjá mig í. Afgreiðsludama í einni búðinni gerðist meira að segja svo djörf að stinga uppá að ég fengi mér bara brjóstagjafarhaldara. LIKE HELL I WOULD!!!! Segir maður chubby stelpum bara að fá sér óléttubuxur? Ég hneykslaðist náttúrulega hrikalega á þessari ósmekklegu tillögu og þá fór afgreiðslukéllingin bara í fýlu. Ég tók þá meðvituðu ákvörðun að stíga ei fæti aftur í þá búð. (þetta var náttúrulega ekkert kélling. Ung stelpa. En þar sem ég móðgaðist svona ógeðslega út í hana þá er hún kélling).

Ég fann svo loksins búð sem hafði eitthvað pínu úrval af höldurum í sirkusstærðum. (Þegar ég segi úrval þá meina ég 6-7 mismunandi haldara sem ekki eru ömmuhaldarar og eru klæðilegir). Og versla ég þar núna. Einn vankanturinn við þetta allt saman er að það er ekki séns að kaupa sér nærfatasett og svo kosta haldararnir lágmark 5500 kall. Sérsaumaður andskoti og sérstyrkt. *dæs*

Svo lenti mín þessari skemmtilegu aðstöðu að vera að fara til Spánar á sólarströnd í rúma viku í næstu viku. Ok. Ég á ekkert bikini!! Finnst það einstaklega lummó að fara í sundbol á ströndina þannig að ég ákvað að reyna við það vonlausa verkefni að finna á mig bikini. Gat náttúrulega gleymt því að fara í verslanir sem seldu ekki einu sinni mína brjósthaldarastærð því ekki myndu þeir selja bikini í ofurskálum. Þá var líka orðið fátt um fína drætti og mín trausta nærfatabúð selur ei bikini. Nú var útlitið orðið svart.

Fór inní hverja verslunina á fætur annarri. "Já góðan daginn. Átt þú bikini í 36F?" Það væri líklegra að afgreiðsludömurnar ættu gullhúðaðan Ferrari á lager heldur en bikinihaldara í þessu númeri. Fékk hvert blankó andlitið á fætur öðru. Sumar þeirra reyndu nú að vera líbó og bjartsýnar og fá mig til að prófa hitt og þetta bikinið sem "eru óvenjulega stór miðað við númer". Öll þeirra náðu ekki að hylja nema þriðjung túttuflatarmáls.

Míns var aaaalveg búin að missa alla von. Búið að fara í allar bikinisölubúðir á höfuðborgarsvæðinu. Ein eftir. Haldiði ekki að sú búð hafi bara átt 7 mismunandi tegundir og allar tegundirnar í 2 mismunandi undirsniðum og fengust öll í mínu númeri!!! Ég stóð þarna eins og fáviti á miðju búðargólfinu og grét eins og smákrakki af gleði. Prófaði náttúrulega allar tegundirnar og afgreiðsludaman hefur haldið að ég væri eitthvað þroskaheft enda með sólheimaglottið límt á fésinu og gleðitárin storknuð á kinnunum ásamt maskaranum sem þau fóru í samfloti með.

Ég lenti þarna í einhverju sem ég ALDREI lent í. Að finna brjóstahengi og geta ekki valið mér hvað fyndist flottast. Að hafa valmöguleika! Ég svíf ennþá á bleiku skýji bikinifundar míns og sólarströndin er loksins farin að toga í með einhverju öðru en sundfatakvíða.

Frussað af Kiðhildi Ó. Kynd, klökkan 20:14
::
---------------oOo---------------