Íslenzkt lambakjet

fimmtudagur, mars 16, 2006

Varnarmálin

Er búin að vera að ræða við fólk, bæði netleiðis og frussleiðis, um einhliða ákvörðun Bandaríkjahers að nánast yfirgefa herstöðina (mér skilst að það eigi einhverjir örfáir dátar að vera hérna til málamiðlunar). Ég bjóst við því að fólk myndi hafa mjög mismunandi skoðanir á þessu og verða nokk heitt í hömsum í rökræðum um ágæti þessarar ákvörðunar, aðdraganda hennar og framkvæmd.

Það kom mér á óvart að langflestir voru sömu skoðunar. Flestir eru bara sáttir við að bandaríska herliðið fari þó að ákveðinn hópur harmi það að þetta muni valda mörgum atvinnumissi. Núna á þessum síðustu og verstu tímum þá held ég að fólki hafi alveg orðið það ljóst að yfirgangur Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi er orðinn það mikill (hefur reyndar alltaf verið mikill) að það er jafnvel orðið "hættulegra" uppá hryðjuverkaárásir að gera að styðja þá heldur en að lýsa bara yfir hlutleysi.

Ísland er ennþá í NATO og á meðan við erum enn þar í röðum þá eru varnir okkar tryggðar, en þetta er áhyggjuefni sumra þeirra sem studdu hvað mest veru hersins. Þessar fjóru herþotur sem hér eru skipta engu máli ef að til árásar kæmi. Þannig að vera þeirra skiptir ekki höfuðmáli. Þannig að ákvörðun hersins að þessu leyti er mjög skiljanleg. Enn og aftur finnst mér það hryllingur að ríkisstjórn Íslands lýsti opinberlega yfir stuðningi við Íraksstríðið á sínum tíma án nokkurra skiljanlegra ástæðna annarra en að vonast eftir að Kaninn haldi áfram veru sinni í Keflavík. Það er svo komið að kötturinn í sekknum hefur verið keyptur. Herinn ætlar burt og eftir situr nafn okkar á stuðningsplaggi ólöglegs stríðs, stríðsglæpa og mannréttindabrota.

Eina eftirsjáin sem ég hef er af þyrlusveitunum sem hafa í ófá skipti bjargað mannslífum. Það er náttúrulega til skammar að við Íslendingar höfum ekki komið okkur upp almennilegum þyrlusveitum þar sem þyrlurnar geta farið í skoðun og viðgerð án þess að kerfið lamist. Það er í sjálfu sér ótrúlega sorglegt að við höfum þurft að stóla jafn mikið og raun ber vitni á bandaríska herinn þegar kemur að björgunaraðgerðum, því við eigum og ættum að vera sjálfum okkur næg þar. Við ættum að líta á þetta sem kærkomið tækifæri til að koma okkar björgunarmálefnum í farveg.

Frussað af Kiðhildi Ó. Kynd, klökkan 12:30
::
---------------oOo---------------