Íslenzkt lambakjet

mánudagur, febrúar 27, 2006

Prívasí?

Undanfarið hefur ný tíska rutt sér til rúms á NFS. Nú, þegar slasaðir einstaklingar hafa verið fluttir niðrá Lansa með þyrlu, þá standa myndatökumenn NFS við pallinn og mynda það þegar sjúklingarnir eru færðir úr þyrlunni og renndir inní hús. Síðan er þetta sýnt um kvöldið í fréttinni okkur almúganum til glöggvunar.

Mér þykir þetta í hæsta máta ósmekklegt þar sem hér er verið að ráðast inní friðhelgi sjúklinga. Þegar við t.d. förum til heimilislæknis þá hefur enginn rétt á því að taka myndir af okkur inná biðstofunni að okkur forspurðum. Þetta á einnig við um spítalana. Hvernig mynduð ykkur annars finnast ef þið væruð t.d. að bíða niðrá húð og kyn og einhver myndatökumaður fer að taka myndir af ykkur? Sjúkrahúsa og læknaferðir einstaklinga koma engum við nema þeim sjálfum.

Það sem mér finnst verst við þessar myndatökur er að ég efast ekki um að sjúklingarnir sem eru nýbúnir að lenda í trauma, hafi ekki hugmynd um að það sé verið að taka af þeim myndir og/eða séu því ósamþykkir. T.d. um daginn þegar einhver sjómaður lenti í slysi þá sást það bersýnilega á svip hans að honum krossbrá við að sjá myndatökumennina þegar verið var að rúlla honum inní hús. Hann lá þarna bjargarlaus, hræddur, volkaður og ber að ofan og þurfti að horfa uppá það að hans nánustu ættingjar, vinir, kunningjar og já landið allt fái að sjá hann í þessu ástandi í fréttatímanum.

Það að lenda í hörmulegu slysi er eitt og sér alveg nóg fyrir einstaklingana. Að mynda fólk á sinni varnarlegustu stund er annað og ég sé ekki að það þjóni neinum tilgangi í fréttalegum skilningi. Það þarf ekki nokkur maður að vita hver sjúklingurinn er, enda hefur fólk engan rétt til þess. Það hreinlega hræðir mig að vita að ef ég lendi t.d. einhvern tímann í slysi og er sótt með þyrlu þar sem það þarf jafnvel að klippa af mér fötin til að sjúkraflutningamennirnir geti gert það sem þeir þurfa að gera, að það bíði mín fréttamenn við komuna á sjúkrahúsið að taka myndir af mér berskjaldaðri í þessu ástandi og blasta yfir alla þá sem eru mér kærastir nokkrum klukkustundum síðar án minnar vitundar jafnvel og svo sannarlega án míns samþykkis. Hvar er réttur sjúklingsins í þessu máli?

Þið þarna hjá NFS, hættið þessu strax!!

Frussað af Kiðhildi Ó. Kynd, klökkan 18:37
::
---------------oOo---------------