Íslenzkt lambakjet

föstudagur, apríl 21, 2006

97

Flugvélapælingar. Nú fór mín í fjórar flugferðir á þessu ferðalagi og var hver þeirra um 3 tímar. Í hverri og einustu þeirra voru flugfreyjurnar að vesenast með einhverja vagna og troða þeim þennan þrönga gang sér og farþegum til trafala og amala. Fyrst var það vagninn með fréttablöðunum, síðan var það vagninn með veitingunum, síðan vaginn með söluvarningnum og síðan ruslavagn. Og á meðan þessir vagnar eru að ferðast um ganginn er lífsómögulegt að komast framhjá þeim og þ.a.l. borin von að fara á klósettið.

Þrír tímar eru í mínum bókum ekki langur tími og sé ég alveg enga þörf á að vera með sérstakan veitingasöluvagn á jafn stuttri ferð. Fólk getur bara fengið sér vel að borða áður en það fer af stað og ef það vill kaupa sér eitthvað að borða í flugvélinni getur það bara keypt beint af flugfreyjunni sem hoppar og sækir matinn án þess að vagninn sé keyrður eftir ganginum.

Sama með þennan varning. Í flugstöðvunum eru fullt af búðum og fólk getur alveg bara verslað þar. Hvaða bjánaþörf er það að þurfa að versla eitthvað í flugvélinni?

Ég ferðaðist með Iceland Express og stóð í þeirri meiningu að þetta væri lággjaldaflugfélag þar sem engir væru söluvagnarnir. Ég nefnilega lít ekki á þá sem lúxus, heldur eitthvað sem er fyrir mér og er truflandi. Maður óneitanlega velti því fyrir sér hvort þessir söluvagnar væru eingöngu til þess að flugfreyjurnar hefðu eitthvað að gera á meðan fluginu stæði. En þær geta nú, rétt eins og við hin, slappað aðeins af í þessa þrjá tíma sem það tekur að fljúga. Gætuð þið ímyndað ykkur að það þyrfti að vera með sérstaka veitinga og söluvagna í rútum á leið til Kirkjubæjarklausturs?

Frussað af Kiðhildi Ó. Kynd, klökkan 12:57
::
---------------oOo---------------