mánudagur, janúar 30, 2006
Herra ÍslandMálið með herra Ísland hefur ekki farið framhjá mér frekar en nokkrum öðrum núna á þessum síðustu og verstu tímum. Vesalings drengurinn var sviptur titlinum vegna þess að hann vinnur við það að búa til þætti sem fjalla um fyllerí, kynlíf og ber brjóst. Forsvarsmönnum keppninnar fannst þetta starf hans eitthvað setja út á hans hlutverk sem fegurðardrottning að vera fyrirmynd sómasamlegs lífernis, fegurðar, þokka og gervibrúnku.
Ég satt best að segja næ ekki alveg þessum vinnubrögðum Fegurðarsamkeppni Íslands. Þeir settu Herra Íslandi þá afarkosti að hann yrði að segja upp vinnu sinni ellegar missa titilinn. Mér finnst þetta í einu orði sagt frekar ankannalegt þar eð forsvarsmenn keppninnar vissu nákvæmlega við hvað drengurinn starfaði þegar hann hóf keppni. Mér finnst það eiginlega ekki ásættanlegt að ætlast til þess að sigurvegarinn segi upp vinnu sinni sérstaklega þar sem litið er til þess að það eru engin laun borguð út fyrir að bera titilinn Herra Ísland. Stjórn keppninnar hefðu þá átt að meina Óla þátttöku strax í byrjun. Það að leyfa honum að keppa, vitandi við hvað hann starfaði, er í mínum huga samþykki stjórnarinnar á hans starfi. Það er ekkert annað en hræsni að fara að bakka út núna...
Ástæða sviptingarinnar var sú að þessi þáttur hans "brýtur í bága við þær reglur keppninnar að sigurvegarinn eigi að vera fyrirmynd". Helvítis kjaftæði!
Hér um árið var Herra Ísland kjörinn (af dómnefnd meira að segja þar sem símakosningabrjálæðið var ekki byrjað) og hann hafði setið fyrir á nektarmyndum. Meira að segja mjög grófum nektarmyndum. Myndum sem ágæt sneið þjóðarinnar myndi bara flokka sem klám. Fyrirmynd my ass! Er herra Ísland sem situr fyrir á klámmyndum góð fyrirmynd en sá herra Ísland sem fer með myndavél niðrí bæ og tekur viðtöl við fullt fólk slæm fyrirmynd? Það væri gaman að fá nánari útskýringu forsvarsmanna keppninnar á þessu....
Fyrir utan þetta allt saman þá erum við á árinu 2006. Í dag metum við mannkosti út frá nánast öllu öðru en fegurð. Það er langt síðan að fegurðardrottningar (hvort sem þær eru karlkyns eða kvenkyns) hættu að vera einhvers konar fyrirmyndir. Það eina sem við sjáum er fólk sem hefur verið nauðgað með gervibrúnku, labba fram og til baka á einhverju sviði í leit að viðurkenningu. Sumir fá þessa viðurkenningu, aðrir ekki. Lítið meira hægt að segja um það. En ég held að ungdómurinn í dag almennt sé aðeins dýpra þenkjandi en svo að líta á fegurðardrottingar sem fyrirmyndir eða innblástur. Ég allaveganna vorkenni þeim einstaklingum sem hafa ekki betri fyrirmyndarkandídata en einhverja ókunnugar manneskjur sem fá viðurkenningu fyrir það hvað þær voru sætar og sexí. En það er annað mál....
Það eina sem situr eftir í þessari fegurðarsamkeppnamenningu, ef svo má að orði komast, er að þetta er ágætis skemmtiefni fyrir sjónvarp og gefur manni tækifæri á að kjósa með sms..... svona ef maður fær fráhvörf frá Ædol.
Það að ætlast til að keppendur og hvað þá sigurvegarar í svona keppnum séu eitthvað dannaðri einstaklingar en fólk út á götu er í mínum huga ekkert annað en óskhyggja, og sýnir best fornaldarhugsunarhátt og hræsni þeirra sem fyrir þessum keppnum standa.
::