mánudagur, september 04, 2006
43Nú eru einhverjir siðapostular kökugatanna (lesist: næringarfræðingar) búnir að kasta fram þeirri fullyrðingu að eina leiðin og besta leiðin til að sporna við offitu er að skattleggja óhollan mat. Gott og blessað með að átta sig á því að þjóðin er að fitna og að átta sig á því að óhollur matur sé eitthvað sem mikið er keypt hér á landi, sér í lagi þá gosdrykkirnir.
En hvað með mitt persónulega frelsi? Mér þykir náttúrulega alveg frábært að það skuli vera einhver nægilega sorglegur næringarfræðingur út í bæ sem lætur líf sitt snúast um mitt persónulega mataræði. En engu að síður þá er þetta minn líkami, ég læt í hann það mér í fjandanum sýnist og það að láta mig fara að borga skatt vegna þess sem ég læt oní mig er ekkert annað en argasta forsjárhyggja og kommúnismi. Elsku næringarfræðingar, takk fyrir að nenna að pæla í þessu, en ég afþakka tilraunir ykkar til að hafa vit fyrir mér. Ég er fullfær um að gera það sjálf.
Það er ekki þannig að Íslendingar séu heimskir. Ég efa það að það séu einhverjir Íslendingar sem gera sér ekki grein fyrir því að ef þú borðar feitan mat þá fitnaru. Og ef þú borðar sykur í óhófi veldur það sömu afleiðingum. Einnig held ég að flestir viti það að ef maður borðar meira en maður brennur þá fitnar maður. Það er ekki eins og þjóðin sé vallandi í yfirgnæfandi heimsku.
Offita er vandamál. Bekenni það. Það þarf að grípa til ráðstafanna, bekenni það líka. Er skattlagning og þar með fyrirhyggjusemi og mismunun rétta leiðin? Klárlega ekki. Orsakanna er dýpra að leita. Það er allt of oft sem maður sér foreldra vera að gefa ungum börnum sínum sykrað kók eins og um vatn eða mjólk væri að ræða. Í fyrsta lagi þá Á EKKI að gefa börnum undir 10 ára aldri NEINA KOFFEINDRYKKI því það heftir þroska taugakerfisins þeirra. Á að refsa mér fyrir og láta mig borga aukaskatt fyrir mitt sykurlausa Pepsí Max, því að þessir foreldrar og aðrir kunna sér ekki hóf? Það þarf aðrar og effektívari aðferðir til að breyta viðhorfi landans og notkun á óhollum drykkjum og mat en að seilast í pyngjuna.
Viljum við virkilega búa í gamla Sóvét þar sem hugsað er fyrir okkur?
::